Læknishúsið

Læknishúsið á Hesteyri

Læknishúsið á Hesteyri er fjölskyldurekið kaffi og gistihús, staðsett í stórfenglegri náttúru Hornstrandafriðlandsins.

Birna Hjaltalín Pálsdóttir byrjaði rekstur hússins árið 1994 og gerði það að vinsælasta viðkomustað í friðlandinu með sinni einstöku gestrisni og heimsins bestu pönnukökum. Dætur Birnu, þær Ingibjörg, Soffía, Margrét og Pálína ásamt bræðrum sínum Hauki og þórði unnu í byrjung gífurlega mikla vinnu við að koma húsinu í það horf að hægt væri að starta gistingu og kaffihúsi í Læknishúsinu. Síðan 2006 hefur Hrólfur sonur hennar unnið með henni á Hesteyri og hefur nú alfarið tekið við daglegum rekstri Læknishússins.


Heimsókn á Hesteyri er ferðalag til gamla tímans. Umhverfi Læknishússins býður upp á skemmtilega göngutúra út með firðinum eða að gömlu hvalstöðinni sem stendur um hálftíma gönguferð innar í firðinum.

 Dagsferðir eru mögulegar út á Sléttu og til Aðalvíkur. Hesteyri býður upp á frábært umhverfi sem er einstakt fyrir ljósmyndara og gesti sem leita að návist við stórbrotna náttúruna en vilja einnig njóta þægilegrar gistingar og þjónustu. Rebbi kíkir reglulega við og heillar gesti og gangandi.

 Hesteyri lagðist í eyði 1952 en þar standa nú tíu hús sem öll eru í eigu afkomenda Hesteyringa.

Scroll to Top